Dímen

Dímon stóra og litla á vef

Í seríunni um Kjarna fjalla er þrykk af Dímonunum niður af Fljótshlíðinni. Í ramma með þeim eru Einhyrningur innhjá Emstrum og Þríhyrningur sem er bæjarfjall Hvolsvellinga. Þristurinn heitir „Talið í“ og átti að vísa til þess að í örnefnunum væri talning: einn-tveir-þrír. Pælingin var sú að heitið Dímon merkti „tvífjall“; væri upphaflega komið úr fornírsku og talið sérstaklega eiga við um tvítyppta hæð í landslagi.

Nú kemur á daginn að sennilega er það kolrangt að herma töluna tvo upp á Dímonurnar á Markarfljótsaurum (og skiptir þar engu máli þótt þær séu tvær og heiti Litla og Stóra). Þetta hef ég uppúr pistli sem ég rakst nýlega á. Hann er eftir Sigurð Sigurðarson (þann er m.a. skrifaði bókina „Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls“) en Sigurður vísar síðan í eldri grein eftir Ásgeir Ó. Einarsson, dýralækni (frá ágúst 1997), þar sem skilmerkilega er rökstutt að orðsifjarnar séu ekki írskar heldur þýðverskar og að „Dímon“ eða „Dímun“ vísi til diemen, sem er þýska og merkir heystakkur eða kornstakkur.

Í grein Ásgeirs, sem er raunar bréf til Morgunblaðsins, koma eldri búskaparhættir við sögu og að það hafi verið nauðsynlegt til þess að verka korn að raða stilkunum upp í stakka af þessu tagi, sem munu hafa orðið allháir og miklir um sig. Í nútímanum er auðvelt að glöggva sig á þessu með því að gúgla „diemen“ og virða fyrir sér það sem leitin leiðir í ljós.

Nú var engin kornverkun í Norðtungu, þegar ég er þar í sveit, en ég man eftir því að böggunum var hlaðið upp á rönd svo að þeir verðu sig betur gegn áfalli og rigningu. Þessar baggastæður gátu orðið ansi tilkomumiklar í ljósaskiptunum þegar dalalæðan lagðist yfir.

Að mínu mati er þetta hin ágætasta kenning hjá þeim Ásgeiri og Sigurði. Ég kaupi allavega hikstalaust að Dímonanir séu tilbrigði við korn- eða heystakka í landslaginu. Og svo er sérstaklega skemmtileg tenging við mótív gömlu impressíonistanna (Monet og Pizarro) og sporgöngumanna þeirra (Van Gogh og Nolde).

  •  Við Dímon í Þjórsárdal / skissur 15. apríl 2017