Það er nýskeð að olíulitirnir voru teknir fram aftur eftir langa dvöl í geymslu. Þangað lögðust þeir stuttu eftir að ég kláraði Mynd og hand fyrir bráðum 30 árum síðan.
Á einhverri önninni veturinn 1986-87 var verkefnið að gerast handgenginn olíunni. Ég keypti ágæta liti en átti ekki fyrir striga þannig að málað var á notaðar álplötur sem fengust úr prentsmiðju DV. Myndirnar urðu margar en misjafnar eins og gengur. Olían var meðhöndluð af nokkurri sparsemi og því mátti yfirleitt greina undir pensilskriftinni hina eða þessa frétt sem birst hafði á síðum DV haustið 1986.
En svo bar nú einmitt til um þær mundir að þeir Reagan og Gorbatchev hittust í Höfða og þess vegna fékk ein myndin heitið „Heimsendahappdrættið“. Hér eru fimm hausar í röð líkt og í spilakassa þar sem hending ræður því hvaða kombínasjón kemur upp.
Svolítið súrt að þetta skilerí skuli hafa tengingu við líðandi stund, nú þegar leiðtogar heimsins eru á ný farnir að skylmast með kjarnorkusverðunum.